Samstaða var um það meðal stjórnarliða í menntamálanefnd Alþingis þar til fyrir fáeinum dögum að setja mun meiri hömlur á umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði en nú hefur orðið niðurstaðan.

Sem kunnugt er hafa komið fram efasemdir um hlutafélagavæðingu RÚV innan Framsóknarflokksins, meðal annars á miðstjórnarfundi nú á dögunum, og raddir heyrst um að rétt væri að takmarka umtalsvert möguleika hins nýja félags til að afla sér auglýsingatekna. Sama sjónarmið kom fram opinberlega hjá formanni menntamálanefndar, sjálfstæðismanninum Sigurði Kára Kristjánssyni. Samstaða náðist um málið og stefndi í að meirihluti menntamálanefndar legði til að mínútuþak yrði sett á auglýsingar Ríkisútvarpsins ohf. til þess að tryggja að það gæti ekki þrengt um of að einkareknum fjölmiðlum á auglýsingamarkaði.

Af ástæðum sem Viðskiptablaðinu eru ekki kunnar skiptu fulltrúar Framsóknarflokksins í nefndinni hins vegar um skoðun fyrir nokkrum dögum. Niðurstaðan varð því að setja ekki hömlur á auglýsingar í Ríkisútvarpinu að öðru leyti en því, að fyrirtækinu verður óheimilt að selja auglýsingar á vef sinn og hlutfall tekna af kostun má ekki aukast frá því sem nú er. Leiða má líkum að því að þeir framsóknarmenn sem vilja veg RÚV sem mestan hafi óttast að starfsemi þess yrði sniðinn of þröngur stakkur með auglýsingaþaki.

Önnur umræða um RÚV-frumvarpið verður á Alþingi á morgun, fimmtudag. Gert er ráð fyrir að fundum Alþingis fyrir jólahlé ljúki á laugardag. Stjórnarliðar leggja allt kapp á að frumvarpið öðlist gildi fyrir áramót en óttast að stjórnarandstaðan haldi uppi málþófi til að tefja fyrir því. Gæti þá farið svo að Alþingi stæði lengur en nú er stefnt að.

Í Viðskiptablaðinu í dag er rætt við forsvarsmenn stóru sjónvarpsmiðlanna þriggja -- þá Ara Edwald, Pál Magnússon og Brynjólf Bjarnason -- um stöðu og horfur á íslenskum sjónvarpsmarkaði, meðal annars með hliðsjón af hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins.