Vöruútflutningur í greiðslujöfnuði var áætlaður 150,2 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi 2020 en vöruinnflutningur 168,8 milljarðar. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar .

„Vöruviðskiptajöfnuður var því áætlaður neikvæður um 18,6 milljarða króna. Á sama ársfjórðungi var þjónustujöfnuður áætlaður jákvæður um 24 milljarða. Útflutt þjónusta var áætluð 115,5 milljarðar en innflutt þjónusta 91,4 milljarðar," segir í fréttinni.

„Á fyrsta ársfjórðungi 2020 var því áætlað verðmæti útflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 265,7 milljarðar samanborið við 308,4 milljarða árið áður. Á sama tíma var áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 260,2 milljarðar samanborið við 276,7 milljarða á sama tíma árið áður. Vöru- og þjónustujöfnuður var því áætlaður jákvæður um 5,5 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2020 en var jákvæður um 31,7 milljarðar á sama tíma 2019."

Útflutningstekjur af ferðaþjónustu og samgöngum lækka á milli ára

Verðmæti þjónustuútflutnings var 16,3 milljörðum króna lægra á fyrsta ársfjórðungi 2020 en á sama tíma árið áður, eða 12,4% á gengi hvors árs. Útflutningstekjur af ferðaþjónustu lækka á milli ára um 19,4 milljarða króna eða 29,3% á gengi hvors árs fyrir sig. Tekjur af samgöngum og flutningum lækka einnig á sama tíma um 13,1% eða 5 milljarða króna á gengi hvors árs.

Verðmæti þjónustuútflutnings til Evrópu á fyrsta ársfjórðungi 2020 nam 59,2 milljörðum króna eða 51,3% af heildarverðmæti þjónustuútflutnings. Þar af var þjónustuútflutningur til Bretlands 19,5 milljarðar króna eða 16,9% af heildarverðmæti. Á sama tíma nam verðmæti þjónustuútflutnings til Bandaríkjanna 30,5 milljörðum króna eða 26,4% af heildarþjónustuútflutningi.