Óhætt er segja að saga Unity, sem var stofnað í kjallara af Davíð og tveimur félögum hans árið 2004, sé áhugaverð. Saga Unity og Davíðs sjálf er rakin í Áramótum , tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom nýlega út.

Í viðtali við Davíð sem birtist í Viðskiptablaðinu sumarið 2016 er saga fyrirtækisins rakin og hvernig leiðir Davíðs og meðstofnenda hans, Nicholas Francis og Joachims Ante, lágu saman. Davíð segir í viðtalinu frá því að hann hafi snemma fengið áhuga á forritun eftir að hafa ungur flutt til Danmerkur ásamt móður sinni, blaðakonunni Sigrúnu Davíðsdóttur. Móðir hans hafði keypt sér PC tölvu en í henni var ekki hægt að spila tölvuleiki, svo Davíð ákvað sjálfur, þá 11 ára gamall, að hann þyrfti að forrita sína eigin og þar með var ekki aftur snúið.

„Ég var eiginlega bara fyrir framan tölvuna þar til í menntaskóla og eitthvað lengra," sagði Davíð m.a. í umræddu viðtali, auk þess sem hann lýsti því hvernig hugmyndin á bak við Unity kviknaði. „Ég átti gamlan vin úr menntaskóla sem langaði að gera tölvuleiki og við vorum mikið að tala um það langt fram eftir nóttu hvernig væri hægt að gera alls konar tölvuleiki. Við vorum að fikta og hann fann þýskan strák sem vildi vinna með okkur," sagði Davíð. Það endaði þó svo að þeir einblíndu mun meira á tæknina á bak við leikina heldur en leikina sjálfa.

Árið 2004 hafi þeir svo ákveðið að fyrirtækið yrði hugbúnaðarfyrirtæki fremur en tölvuleikjafyrirtæki og hugbúnaðurinn sem þeir höfðu unnið í til að leggja grunn að leikjum yrði varan. Á þessum tíma voru þeir „ógeðslega blankir" eins og Davíð orðaði það og hann búinn með allan sparnað sem hann hafði byggt upp úr fyrirtæki sem hann rak áður. „Við leigðum okkur íbúð á Nørrebro og ég vann á kaffihúsi á kvöldin, ekki svo mikið út af laununum heldur matnum. Ég fékk mat þegar ég var að vinna og ég gat líka tekið með mér gamalt brauð heim, við borðuðum það heima hjá okkur og lifðum einhvern veginn allir þrír á þessu brauði. Það eru minningarnar, brauð og shawarma rúllur, það var hægt að fá shawarma með chili fyrir 16 danskar og maður gat mokað eins mikið af chili á og maður þoldi," lýsti Davíð hlæjandi hvernig þessi ár voru fyrir blaðamanni Viðskiptablaðsins.

„Það er pínulítið skrýtið að segja frá þessu, en á þessum tíma erum við annars vegar rosalega blankir og algerir aular sem voru klárir forritarar en vita ekkert um viðskipti eða bransann okkar, en hins vegar rötum við á einhverjar mjög djúpar hugmyndir. Þær voru auðvitað ekkert sannar þá en þær urðu sannar síðar. Maður getur spurt sig hvort þetta hafi verið heppni, en ég ákveð að líta ekki á þetta sem heppni heldur sem eitthvað „brilliant"," sagði Davíð.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .