Í morgun var skrifað undir samning milli Eimskips og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins um einingamat á námi fyrir starfsfólk í vöruflutningum.
Í tilkynningu frá félaginu kemur fram námið sem um ræðir fer fram í Flutningaskóla Eimskips sem ætlaður er starfsfólki á hafnarsvæði og í vöruhúsum Eimskips.

Í náminu er fengist við fjölbreytt viðfangsefni s.s. námstækni, sjálfstyrkingu, íslensku, ensku, stærðfræði, tölvufærni, tjáningu og framsögn auk margra þátta er lúta að starfsemi Eimskips.

Hluti af náminu var starfsþjálfun á starfssvæðum fyrirtækisins. Námið verður metið til 23 eininga á framhaldsskólastigi. Nú eru 11 starfsmenn sem stunda nám við skólann og koma þeir til með að útskrifast í vor.

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri starfsþróunarsviðs, skrifaði undir samninginn fyrir hönd Eimskips og Ingibjörg E. Guðmundsdóttir, fyrir hönd Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.