Horfið verður frá sértækri neyslustýringu með vörugjöldum og virðisaukaskattskerfið einfaldað með minni mun á milli þrepa, færri undanþágum og auknu jafnræði milli skyldra atvinnugreina í kjölfar endurskoðunar á vörugjalda- og virðisaukaskattskerfunum. Að endurskoðuninni vinnur stýrihópur sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað.

Meðal verkefna hópsins er að leita leiða til að breikka skattstofna og sporna við skattsvikum til að unnt verði að létta skattbyrði almennings og fyrirtækja auk þess sem meta skal mögulegar mótvægisaðgerðir til að mæta þörfum tekjulægri hópa.

Á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að ljóst sé að brýn þörf sé á að endurskoða virðisaukaskattskerfið. Efra þrepið sé eitt það hæsta í heimi en skilvirkni kerfisins haldist ekki í hendur við hátt skatthlutfall. Það hafi gefið verulega eftir á síðari árum, bæði sem hlutfall af heildarskatttekjum ríkisins og landsframleiðslu.

Stýrihópurinn mun setja á fót starfshópa sem vinna skulu að afmörkuðum þáttum í endurskoðuninni. Þá munu ráðgjafaráð fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagsmál og opinber fjármál og sérfræðingateymi AGS starfa með stýrihópnum og einstökum starfshópum hans. Einnig er stýrihópnum ætlað að hafa reglubundið samráð við hagsmunasamtök launþega og vinnuveitenda og aðra þá sem hagsmuna eiga að gæta.

Í hópnum eiga sæti þrír fulltrúar fjármálaráðuneytis, þau Guðrún Þorleifsdóttir, lögfræðingur, Maríanna Jónasdóttir, skrifstofustjóri og Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri.