Æðsti dómstóll Evrópusambandsins hefur úrskurðað að neytendum beri að borga vörugjald af áfengi sem er flutt á milli landa innan sambandsins, jafnvel þó það sé ætlað til einkaneyslu.

Úrskurðurinn telst sigur fyrir ríkisstjórnir aðildarríkjanna, en talið er að hundruð milljóna evra tapist vegna þessa. Richard Ashworth, fulltrúi breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, segir að viðbrögð við niðurstöðunni séu blendin. Niðurstaðan sé frábær tíðindi fyrir Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands og einnig fyrir fjölmarga smásala sem urðu fyrir hugsanlegu tekjutapi vegna þessa. Hann segir jafnframt að niðurstaðan sé fyrst og fremst vonbrigði fyrir neytendur, Ashworth segir það rangt að komið sé fram við saklausa neytendur eins og glæpamenn fyrir það eitt að nýta sér réttindi sín á innri markaði Evrópusambandsins. En ákvæði í úrskurðinum segir að neytendum sé skylt að bera áfengið yfir landamærin, svo hægt sé að sanna að það sé ekki keypt fyrir aðra aðila. Dómstóllinn segir að ákvæðið sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir svik.

Skattlagning á áfengi er breytileg innan Evrópusambandsins, en heimilt er að flytja áfengi á milli landa og er aðeins greiddur virðisaukaskattur af því þar sem áfengið er keypt, sé það gefið að það sé ætlað til einkaneyslu. Þetta hefur orðið til þess að íbúar aðildarríkja þar sem áfengisskattur er hár hafa ferðast til annarra ríkja þar sem hann er lægri og hamstrað áfengi. Bretar hafa nefnt þetta "booze cruising," en Bretar og Svíar eru meðal þeirra þjóða sem ferðast til dæmis til Frakklands, þar sem áfengi er ódýrara.