Bráðabirgðatölur um innheimtu virðisaukaskatts benda til að innflutningur á vörum í apríl hafi numið alls 27 milljörðum króna, segir greiningardeild Landsbankans. Til samanburðar var vöruinnflutningur 33,3 milljarðar króna í mars.

Það er samdráttur í innflutningi eldsneytis og ýmissa neysluliða, má þar nefna fólksbíla. Innflutningur á fjárfestingar- og rekstrarvörum jókst aftur á móti og er ástæðunnar að leita til stóriðjuframkvæmda.

"Vegna tilfærslu páskahátíðarinnar er varasamt að draga of sterkar ályktanir af samanburði á mánaðartölum á milli ára. Páskarnir voru í mars í fyrra en í apríl í ár og fjölgaði virkum vinnudögum í mars því um 15% á milli ára, en fækkaði aftur á móti um 20% í apríl. Þetta er líklega ástæða þess að innflutningur á föstu verðlagi jókst um 6% frá apríl í fyrra, en um 22% á milli fyrsta ársfjórðungs 2005 og 2006," segir greiningardeild Landsbankans.