Vöruinnflutningur í maí, án skipa og flugvéla, nam um 24 milljörðum króna samkvæmt bráðabirgðatölum byggðum á innheimtu virðisaukaskatts. Þetta er tæplega 40% meiri innflutningur að raungildi en í maí í fyrra og skýrist einkum af þriðjungi meiri innflutningi flutningatækja, bæði til einkanota og atvinnurekstrar og fjórðungi meiri innflutningi hrá- og rekstrarvöru. Innflutningur eldsneytis vex einnig verulega að verðmætum sem skýrist einkum af verulega hærra innflutningsverði. Innflutningur fyrstu fimm mánuði ársins er að raunvirði tæplega fjórðungi meiri en á sama tímabili í fyrra.

Útflutningsverðmæti í apríl 2005 var örlítið meira en í apríl í fyrra þrátt fyrir
11% sterkari krónu m.v. gengisvísitölu. Verð veigamikilla útflutningsafurða
eins og sjávarafurða og áls það sem af er ári er hærra í erlendri mynt en fyrir ári sem vegur að einhverju leyti á móti sterkari krónu. Vöruskiptajöfnuður í apríl var neikvæður um 4,4 milljarða króna enda innflutningur í mánuðinum mikill og gera má ráð fyrir enn meiri halli í maímánuði, jafnvel þó áætla megi að verðmæti útflutnings verði meira en í maí í fyrra. Þetta er í takt við síðustu þjóðhagsspá ráðuneytisins þar sem gert var ráð fyrir 79 milljarða króna halla á vöruskiptum árið 2005.