Vöruinnflutningur nam 22 milljörðum í febrúarmánuði, sem er 3,5 milljarða króna minna en innflutningur síðasta mánaðar, segir greiningardeild Landsbankans.

Staðvirtur vöruinnflutningur hefur aukist um 23% síðustu tólf mánuði, segir greiningardeildin.

Meginástæða minni innflutnings á milli mánaða má rekja til þess að minna hafi verið flutt inn af eldsneyti, en slíkur innflutningur sveiflast jafnan mikið á milli mánaða.

Bílainnflutningur tekur kipp í febrúar en hann hefur verið mikill en stöðugur síðustu mánuði, segir greiningardeildin.

Líklegt er þó að innflutningur á bifreiðum minnki eitthvað í kjölfar veikingar krónunnar síðustu daga.

Einnig var minna flutt inn af fjárfestingarvörum og hrá- og rekstrarvörum. Nokkur aukning var hins vegar á innflutningi neysluvarnings í febrúar en það endurspeglar hefðbundna uppsveiflu í lok janúarútsala verslana.

Niðurstöðurnar byggja á bráðabirgðatölum um innheimtu virðisaukaskatts og voru birtar í vefriti fjármálaráðuneytisins í dag.