Hagstofa Bretlands hefur nú uppfært vörukörfuna sem notuð er til að mæla verðbólgu þar í landi. Vörur sem hafa bæst í körfuna eru til dæmis áskriftir af tónlistarveitunni Spotify, rafsígarettur og heyrnatól. Aðrar vörur hafa dottið út í kjölfarið en má þá meðal annars nefna drykkjarjógúrtið sem þykir ekki lengur endurspegla neysluvenjur íbúa landsins. Þetta kemur fram í frétt The Guardian .

Ef litið er á innkomu nýju varanna má draga þá ályktun að Bretar séu farnir að huga að heilsunni í auknum mæli en vörur líkt og melónur, sætar kartöflur og prótein duft fá nú einnig pláss í vörukörfunni góðu.

Á síðustu árum hefur tæknin skipað stóran sess í breytingu á vörukörfunni en DVD spilarar hafa til að mynda þurft að lúta í lægra haldi fyrir Netflix.

Vörukarfan inniheldur í kringum 703 vörutegundir sem eiga að gefa sem besta mynd af neyslumynstri Breta. Verðbólgan mælist met lág í nýjustu könnunum eða í kringum 0,3%.