Sigurður Kári Kristjánsson fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir umfjöllun RÚV um samskipti sín og annarra þingmanna við Glitni í kringum fall bankanna draga upp kolranga mynd af þeim atburðum og tilgangi samskiptanna.

„Í umfjöllun RÚV var reynt að gera þau samskipti tortryggileg, líkt og við, og þá einkum Bjarni Benediktsson, værum að ganga erinda Glitnis í þeim samskiptum. Ekkert er fjær sanni,“ segir Sigurður Kári í yfirlýsingu á facebook síðu sinni. „Það er dapurlegt að horfa upp á fréttastofu Ríkisútvarpsins vera þátttakanda í slíkri vegferð, viku fyrir alþingiskosningar.“

Segir Sigurður Kári að sannleikurinn sé að verið hafi verið að vinna að frumvarpi til breytinga á skuldajöfnunarreglum gjaldþrotaskiptalaga.

„Tilgangurinn með þeim breytingum var ekki síst sá að koma í veg fyrir að kröfur lífeyrissjóðanna, þ.e. gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir lífeyrisþega í landinu, myndu renna inn í þrotabú gömlu bankanna og þar með enda í höndum erlendra kröfuhafa,“ segir Sigurður Kári.

„Við vorum, með öðrum orðum, í harðri hagsmunagæslu fyrir almenning í landinu gegn erlendum kröfuhöfum. Við vorum að reyna að bjarga verðmætum. Við vorum ekki í hagsmunagæslu fyrir Glitni eins og halda mætti og áttum ekki í óeðlilegum samskiptum við starfsmenn þess banka.“

Þingflokknum skipt upp í hópa

Segir Sigurður Kári að þingflokknum hafi verið skipt upp í hópa til að eiga í samskiptum við þá sem vildu koma með tillögur, athugasemdir og fá upplýsingar um gang mála svo sérstök krísustjórn Geirs H. Haarde hafi getað einbeitt sér að sinni vinnu.

Í hópnum sem hann hafi verið í hafi verið hann sjálfur, Bjarni Benediktsson ásamt Ólöfu Nordal og Pétri Blöndal heitnum, og þeirra hlutverk var að vera í samskiptum við fjármálastofnanir, þá ekki einungis Glitni, heldur einnig hina bankanna og svo Sparisjóðina sem upplifðu sig sem afskipta í ferlinu öllu.

„Í ljósi alls þessa er í meira lagi einkennilegt fyrir mig, sem var hluti af þessari atburðarás og beinn þátttakandi í henni, að horfa upp á fréttaflutning RUV nú, þar sem barátta okkar fyrir almannahagsmunum og viðleitni til að bjarga verðmætum er látin líta út sem sérhagsmunagæsla fyrir Glitni banka þar sem reynt er að ósekju að baða þátttöku Bjarna Benediktssonar sama spillingarljóma sem þeir fjölmiðlar sem nú sæta lögbanni hafa reynt að gera um langt skeið.“