Fly Play ehf., sem heitir nú Fly Play hf. og áætlar að hefja flugferðir til og frá landinu innan skamms, tapaði 1,9 milljón dollara, andvirði tæplega 233 milljón króna á gengi dagsins, á síðasta ári og fjórfaldaðist tapið milli ára. Eignir félagsins voru metnar á 803 milljónir króna en skuldir voru rúmlega milljarður. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Niðurstaðan er eðlileg í ljósi þess að félagið hefur ekki hafið flugrekstur og tekjur þess voru engar, utan 35 dollara í gegnum fjármunatekjur. Tap félagsins fyrir fjármagnsliði var 1,6 milljón dollara en gjöldin skiptust í 338 þúsund dollara í laun, til 38 stöðugilda, og 1,3 milljón dollara í annan rekstrarkostnaður. Þá hafði gengismunur neikvæð áhrif upp á 272 þúsund dollara.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir félagsins 6,6 milljónum dollara og höfðu tæplega þrefaldast frá fyrra ári. Langstærstur hluti er færður sem óefnisleg eign. Þar er flugrekstrarleyfi félagsins fært til bókar á rúmar 2,9 milljónir dollara, tæpar 359 milljónir króna, hugbúnaður á 2,6 milljónir dollara og vörumerkið Play á 792 þúsund dollara eða 96 milljónir króna á gengi dagsins.

Eigið fé félagsins var neikvætt í ársbyrjun um 1,9 milljónir dollara. Rétt er að geta þess að síðan þá hefur félagið lokið fjármögnun og hlutafé þess verið hækkað. Sem fyrr segir var launakostnaður í rekstrarreikningi 338 þúsund dollarar en meirihluti hans, 2,8 milljónir dollara, var eignfærður meðal óefnislegra eigna.