Í síðustu viku tilkynnti Já að það hefði fest kaup á öllu hlutafé í Gallup en heildarvelta fyrirtækisins eftir kaupin verður um 1,7 milljarðar króna og fjöldi starfsmanna um eitt hundrað. Kaupin marka ákveðin tímamót hjá fyrirtækinu sem hefur verið í stöðugri endurskoðun og nýsköpun til að mæta síbreytilegu umhverfi upplýsingageirans. Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, segir að þrátt fyrir ólíkar áherslur fyrirtækjanna eigi þau samleið í veitingu upplýsingaþjónustu.

„Núna erum við komin á þann stað að við viljum víkka út þjónustuna, auka fjölbreytnina og bæta við fleiri stoðum undir reksturinn. Þá þarf að horfa nákvæmlega til þess hver kjarnastarfsemi fyrirtækisins er,“ segir Sigríður. „Við erum í dag með Já sem er leiðandi á sviði upplýsingaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki en viljum núna bæta við fleiri upplýsingastoðum. Þar kemur Gallup til sögunnar, sem hefur verið leiðandi á sviði markaðsupplýsinga og markaðsrannsókna. Í rauninni eru þetta tvö aðskilin vörumerki og tveir ólíkir markaðir sem þessi fyrirtæki starfa á en kjarninn er sá sami – þ.e. upplýsingaþjónusta sem byggir á nýjustu tækni. Það er ekki hægt að stunda viðskipti í dag án þess að vera meðvitaður um áhrif upplýsingatækninnar á allar hliðar rekstursins.“

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur næstu vikur og mánuði. Hvernig verður sameiningin uppsett?

„Það sem við ætlum að gera er að halda þessum vörumerkjum aðskildum. Það er mjög mikil sérþekking innan beggja fyrirtækja hvort á sínu sviðinu en við viljum efla bæði vörumerkin með sterku baklandi og góðum rekstri. Við munum leggja áherslu á vöruþróun og nýsköpun hjá báðum fyrirtækjum. Við munum leitast við að sameina starfsemina sem er hér á höfuðborgarsvæðinu á einn stað. Síðan erum við auðvitað að fara yfir allt það sem snýr að stoðþjónustu og bakvinnslu og stefnum að sameiningu á þeim sviðum. Við viljum bæta þjónustu við viðskiptavini okkar og nýta okkur upplýsingatækniþróun sem hefur átt sér stað í umhverfi beggja félaga. Við erum fyrst og fremst að taka þessa ákvörðun til að efla bæði fyrirtækin. Við viljum gjarnan vaxa og með því að vaxa með þessum hætti þá getum við nýtt það sem við erum góð í til að verða enn betri. Það verður mikil áhersla lögð á sjálfstæði og fjölbreytni. Gallup er gæðavottað fyrirtæki með sér framkvæmdastjóra og rannsóknarstjóra. Það er hins vegar mikil samlegð í bakvinnslu og tæknilegri upplýsingamiðlun hjá báðum fyrirtækjum sem kemur til með að nýtast viðskiptavinum til lengri tíma litið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .