Sjónvarpsþættirnir um Latabæ eru sýndir í 118 löndum. Vinsældir þáttanna eru miklar og fara vaxandi. Þrátt fyrir vinsældirnar eru þeir þó ekki helsta tekjulind fyrirtækisins.

Ræður þar mestu hversu dýrir þeir eru í framleiðslu en þættirnir um Latabæ eru dýrasta barnaefnið sem framleitt er fyrir sjónvarp í heiminum í dag.

Ein stærsta tekjulind Latabæjar er tekjur sem hljótast af sölu á ýmsum varningi merktum Latabæ, t.d. fatnaður, skólavörur og leikföng. Fjöldi umsókna frá fyrirtækjum sem vilja framleiða vörur undir Latabæjar-merkinu hefur aukist gríðarlega undanfarna mánuði.

Ágústa Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Latabæ, hefur umsjón með því að allir samstarfsaðilar Latabæjar fylgi ákveðnum samþykktum og framleiðsluferlum. Hún segir að fram að síðastliðnu hausti hafi hún ein tekið við umsóknum að utan um notkun á vörumerkjum Latabæjar en nú starfi þrír starfsmenn sem varla hafi undan við að opna tölvupósta og sjái til þess að umsóknir fái rétta meðhöndlun hjá Latabæ.

Um 100 nýjar umsóknir berast til Latabæjar í hverri viku og samhliða því berast endursendingar á vörum sem eru á mismunandi stigum í þróunarferlinu.

Á tímabilinu september 2006 til maí 2008 hafa verið sendar 3600 umsóknir til Latabæjar til samþykktar. Af þeim kemur tæplega helmingur frá löndum Suður-Ameríku og um 27% frá Bretlandi. Í flestum tilvikum er um fatnað að ræða og skólavörur en lítið um leikföng.

„Síðan kemur Ástralíumarkaður nú sterkur inn þessa mánuðina. Hann gæti orðið jafn stór þeim breska ef við miðum við árangurinn fyrstu mánuðina. Við höfum hins vegar í augnablikinu engan umboðsmann í Bandaríkjunum og því er lítið að gerast þar.”

________________________________________

Nánar er fjallað um Latabæ og Ágústu Jónsdóttur í viðtali í Viðskiptablaðinu á morgun.

Áskrifendur geta, frá klukkan 21 í kvöld, lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .