Reglur um vörumerkingar ísraelsks varnings sem framleiddur er á palestínskri grundu voru samþykktar af Evrópuráði nýlega. Reglurnar eru að sögn ráðsins ekki ný lög í fullum skilningi orðanna, heldur endurtúlkun á fyrirliggjandi reglum.

Í reglunum segir að sé varningur framleiddur á Gaza, Golan-hæðum og vesturströnd Palestínu, þar með talið Austur-Jerúsalem, verði framleiðendur að merkja hann sérstaklega svo neytendur geti tekið mið af því við innkaup. Þetta á þó aðeins við um varning sem er ætlaður til sölu innan Evrópusambandsins.

Ástæðan fyrir þessum reglum er sú að Evrópuráð segist ekki viðurkenna yfirráð Ísraels yfir þessum landsvæðum. Þau hafa verið umdeild síðan í júní 1967, eða síðan sex daga stríðinu svokallaða lauk með hertöku Ísrael á þessum svæðum.

Utanríkisráðuneyti Ísrael hefur fordæmt þessa ákvörðun ráðsins, og kallað hana mismunun. Meðal annars skrifaði orkumálaráðherra Ísrael, Yuval Steinitz, á Facebook-síðu sína að ákvörðunin væri „and-semítismi í dulargervi.“