Það sem af er degi hafa vörur selst fyrir um 7 milljarða dala, andvirði um 870 milljarða króna, á „degi einhleypinga“ á vefversluninni Alibaba, að því er segir í frétt BBC. Dagurinn var valinn þar sem dagsetningin 11.11 þótti heppileg fyrir útsölu sem kölluð hefur verið and-valentínusardagurinn og beinist einkum að einhleypu fólki.

Í fyrra seldi Alibaba vörur fyrir 5,75 milljarða dala á þessum degi og er gert ráð fyrir að salan í ár fari yfir 8 milljarða. Dagur einhleypinga er því orðinn einn af stærstu verslunardögum ársins á netinu og jafnast salan á við „stafræna mánudaginn“ í Bandaríkjunum, en það er mánudagurinn eftir Þakkargjörðarhátíð þar í landi.

Í frétt BBC er haft eftir stjórnarformanni Alibaba, Jack Ma, að hann geri ráð fyrir því að um 200 milljónir sendinga fari til kaupenda að degi loknum.