Sala á varningi dróst saman um 9,8% á Spáni í síðasta mánuði samanborið við apríl í fyrra. Hagstofa landsins birti nýjar tölur um sölu í dag. Í frétt BBC segir að samdrátturinn sé mun meiri en búist hafi verið við. Þetta er 22. mánuðurinn í röð þar sem samdráttur mælist. Efnahagserfiðleikar hafa verið einna mestir á Spáni af Evrópuríkjunum og glímir landið við hæsta atvinnuleysið.

Hlutabréfavísitölur í Evrópu hafa þó hækkað í upphafi viðskipta í dag, í kjölfar hækkana á Asíumarkaði. Í London hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,5%, DAX vísitalan í Þýskalandi hækkaði um 1,2% og í París hækkaði CAC 40 um 0,6%.