*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 27. september 2021 18:03

Vöruskilaferlið mikilvægt í netverslun

Niðurstöður könnunar Póstsins sýna að íslenskir viðskiptavinir netverslana vilja einföld og þægileg vöruskil.

Ritstjórn
Kristín Inga Jónsdóttir, markaðsstjóri Póstsins.
Aðsend mynd

Netverslun á Íslandi er að aukast og er sú aukning vel mælanleg í fjölda sendinga frá netverslunum. Ýmislegt bendir til þess að þessi þróun eigi einungis eftir að aukast. Niðurstöður könnunar sem Pósturinn gerði á dögunum sýna ótvírætt að íslenskir viðskiptavinir netverslana vilja einföld og þægileg vöruskil.

„Netverslun er eitt stórt ferli þar sem margir litlir og stórir þættir koma saman. Einn af þessum þáttum er skil á vörum. Vöruskil eru órjúfanlegur hluti netverslunar og væntingar til vöruskila eru mun meiri í dag en hér áður og því mikilvægt að allt ferlið sé einfalt og þægilegt,“ segir Kristín Inga Jónsdóttir, markaðsstjóri Póstsins.

Íslendingar vilji einföld og þægileg vöruskil

Pósturinn gerði könnun á dögunum á viðhorfi íslenskra neytenda til vöruskila í netverslun. Könnunin var send á viðskiptavini Póstsins auk þess sem henni var deilt á samfélagsmiðlum og bárust alls um 11.000 svör. Kristín segir að niðurstöður könnunarinnar séu ótvíræðar og sýni að íslenskir viðskiptavinir netverslana vilja einföld og þægileg vöruskil.

97,6% svarenda sögðust hafa verslað í netverslun á síðastliðnum 12 mánuðum og 89,2% höfðu verslað í íslenskri netverslun. Voru flestir svarenda á Höfuðborgarsvæðinu eða í kringum 65%.

74% svarenda sögðust vera líklegri til að eiga viðskipti við netverslun þar sem hægt væri að skila vörum á einfaldan hátt og 75% svarenda sögðust líklegri til að versla við netverslun sem býður upp á fría endursendingu á skilavörum.

82% svarenda sögðu miklar eða mjög miklar líkur á að þeir myndu versla aftur við netverslun þar sem hægt er að skila vöru á einfaldan hátt.

Kristín nefnir að eitt af því sem valdi fólki hugarangri þegar kemur að verslun á netinu varði skilareglur og skil á vörum. Ýmsar spurningar vakna. Get ég skilað vöru sem ég keypti á netinu. Þarf ég að fara í búðina eða get ég fengið þetta sent með Póstinum? Hvað hef ég langan tíma? Allt eru þetta mjög eðlilegar spurningar enda byggist netverslun á trausti og því að viðskiptavinum finnist þeir öruggir þegar kemur að því að versla á netinu.

Endurbæta vöruskilaferlið

„Undanfarið hefur þessi þáttur fengið aukna athygli netverslana og ekki að ástæðulausu. Vöruskil og einfaldur endursendingarmöguleiki skiptir miklu máli fyrir neytendur. Það að geta skilað vöru án vandræða er mikilvægur hluti kaupferilsins og þær netverslanir sem hafa náð góðum tökum á þessu hafa sýnt árangur og náð að byggja upp góðan grunn af tryggum viðskiptavinum. Við vitum að það skapar bæði mikinn kauphvata og traust til verslana,“ segir Kristín.

Pósturinn er um þessar mundir að endurbæta vöruskilaferlið hjá sér að sögn Kristínar. „Við viljum með því bjóða betri lausn og þjónustu fyrir netverslanir sem einfaldar skilamöguleika fyrir viðskiptavini þeirra og gerir þeim kleift að skila vörum á næsta afhendingarstað Póstsins án vandræða. Við erum rétt að byrja að kynna þessa þjónustu okkar fyrir netverslunum og teljum að þetta sé hagkvæmt fyrir þær og auki jafnframt þægindi fyrir neytendur,“ segir Kristín ennfremur.

Stikkorð: netverslun Pósturinn vöruskil