Á árinu 2014 voru fluttar út vörur fyrir 590,5 milljarða króna en inn fyrir 586,3 milljarða króna. Afgangur var því á vöruskiptum við útlönd, sem nam 4,2 milljörðum króna en 40,2 milljarða króna afgangur var árið 2013 á gengi hvors árs. Kemur þetta fram í tölum Hagstofunnar.

Vöruútflutningur dróst saman um 3,3% frá fyrra ári, á gengi hvors árs, en vöruinnflutningur jókst um 2,8%. Hlutur iðnaðarvöru var 52,5% alls vöruútflutnings og hlutur sjávarafurða var 41,3% en í vöruinnflutningi voru stærstu vöruflokkarnir hrá- og rekstrarvörur með 27,3% hlutdeild og fjárfestingarvörur með 21,2% hlutdeild.

Stærstu viðskiptalönd voru Holland í vöruútflutningi og Noregur í vöruinnflutningi og var EES þýðingarmesta markaðssvæðið, jafnt í vöruútflutningi sem vöruinnflutningi.