*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 17. febrúar 2006 10:35

Vöruskiptahalli 94,5 milljarðar á síðasta ári

Ritstjórn

Á síðasta ári voru fluttar út vörur fyrir 194,4 milljarða króna en innflutiningur á vörum nam 288,9 milljörðum króna samkvæmt endanlegum tölum frá Hagstofu Íslands. Hallinn á vöruviðskiptum við útlönd nam því 94,5 milljörðum en á sama tíma árið áður nam hallinn 33,9 milljörðum á föstu gengi.

Í desembermánuði voru fluttar út vörur fyrir 13,7 milljarða og fluttar inn vörur fyrir 23,1 milljarð króna. Vöruviðskiptin voru því óhagstæð um 9,4 milljarða samanborið við 3,7 milljarða árið áður.

Heildarverðmæti vöruútflutnings síðasta árs nam 12,7 milljörðum eða 7% meira en fyrir árið áður. Sjávarafurðir voru 57% útflutnings og iðnaðarvörur voru 34% af heildarútflutningi. Ál vó þyngst í útflutningi iðnaðarvöru. Samdráttur varð í útflutningi á lyfjum og lækningatækjum.

Heildarverðmæti vöruinnflutnings árið 2005 var 73,3 milljarðar sem er 34% meira en fyrir árið áður. Hrá-og rekstrarvara voru stærsti hluti innflutnings með 24% hlutdeild, fjárfestingavara með 23% og flutningstæki 20%. Að öðru leyti má rekja aukninguna til neysluvöru, eldsneytis og smurolíu.