Halli á vöruskiptum við útlönd nam 9,3 milljörðum króna í desember síðastliðnum en bráðabirgðatölur Hagstofunnar, sem birtar voru 3. janúar, höfðu gert ráð fyrir 16 milljarða króna halla, að því er segir í Vegvísi Landsbankans. Þar kemur fram að mikil breyting sé á milli ára en vöruskiptahallinn hafi numi 20,2 milljörðum króna í desember 2006.

Innflutningur var nánast sá sami og í bráðabirgðatölunum eða um 35 milljarðar króna en aukning í útflutningi skýrir minni vöruskiptahalla en gert hafði verið ráð fyrir.

Gert ráð fyrir að ál fari yfir sjávarafurðir í ár

Vöruskiptahalli fyrir árið 2007 í heild nam tæpum 88 milljörðum króna og er um 45% minni en 2006. Ef leiðrétt er fyrir inn- og útflutningi á skipum og flugvélum nemur lækkun á vöruskiptahalla rúmum 17%, segir í Vegvísi Landsbankans. Sjávarafurðir námu um 42% af heildarútflutningi landsins í fyrra og útflutningur á iðnaðarvörum nam 39% og þar vegur ál þyngst. Í Vegvísi segir enn frekari vaxtar útflutnings að vænta á þessu ári, þegar álútflutningur verði orðinn í samræmi við afkastagetu álvera landsins. Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir um 4% vexti útflutnings á föstu verðlagi milli áranna 2007 og 2008. Að sögn greiningardeildarinnar stefnir allt í að álútflutningur vegi þyngra í ár en sjávarafurðir.