Vöruskiptahalli fer nú minnkandi eftir tímabil mikils halla undanfarin tvö ár, fyrst og fremst vegna vaxandi útflutnings en lát hefur einnig orðið á vexti vöruinnflutnings, segir greiningardeild Glitnis.

Verðmæti vöruútflutnings í mars nam 27,3 milljörðum króna en innflutningur nam 34,1 milljarði króna og því var hallinn 6,8 milljarðar króna í síðasta mánuði.

?Það er raunar mesti vöruskiptahalli í einum mánuði það sem af er ári, en hallinn í sama mánuði í fyrra var hins vegar ríflega tvöfalt meiri. Á fyrsta fjórðungi ársins var halli vöruskipta helmingur þess halla sem var á sama tímabili í fyrra miðað við fast gengi,? segir greiningardeildin.

Hún segir mikil aukning á verðmæti vöruútflutnings á stærstan þátt í bata á vöruskiptum undanfarið. ?Líklegt er að töluverður hluti af þeirri aukningu sem var á vöruinnflutningi í mars skýrist af innflutningi eldsneytis, en sá liður sveiflast mikið milli mánaða. Samt sem áður virðist sem innflutningur neysluvara sé öllu lífseigari en við höfðum áður talið,? segir greiningardeildin.

Greiningardeildin telur að allar líkur eru á að bati á vöruskiptajöfnuði haldi áfram það sem eftir lifir árs. ?Útflutningur mun vaxa verulega með aukinni framleiðslugetu á áli, og innflutningur fjárfestingarvara mun að sama skapi minnka mikið á næstu mánuðum er núverandi framkvæmdum tengdum stóriðju lýkur. Meiri óvissa ríkir um þróun innflutnings á neysluvörum, en þó teljum við að hann muni nokkurn veginn standa í stað eða jafnvel dragast lítillega saman frá fyrra ári,? segir greiningardeildin.