Halli varð af milliríkjaviðskiptum Japana í janúar og er það í fyrsta skipti í nær tvö ár sem vöruskiptahalli mælist í landinu. Að sögn BBC nam hallinn 5,2 milljörðum Bandaríkjadala og er hann rakinn til þess að útflutningur jókst aðeins um 1,4% en búist hafði verið við því að útflutningur ykist um 7%. Japanska jenið hefur styrkst mikið að undanförnu sem hefur orðið til þess að útflutningur eykst ekki eins mikið og áður.

BBC vitnar í sérfræðinga sem spá því að vöxtur útflutnings muni taka við sér á ný og ýta undir frekari hagvöxt þó ekki sé víst að hagvaxtarhraðinn verði hinn sami og áður.

Önnur ástæða þess að útflutningur var minni en ráð var gert fyrir ku vera sú að Kína, sem nýlega tók fram úr Japan sem næst stærsta hagkerfi heims, hefur reynt að kæla hagkerfið niður að undanförnu og því hefur innflutningur frá Japan dregist saman.