Halli varð á vöruskiptum Kína við útlönd á fyrsta fjórðungi ársins og er það í fyrsta skipti í sjö ár sem vöruskiptahalli mælist þar yfir heilan ársfjórðung. Eins og áður hefur komið fram á vb.is mældist halli af vöruskiptum landsins í febrúarmánuði en í mars varð þó 140 milljón dollara afgangur samkvæmt frétt BBC. Yfir þrjá mánuði nam vöruskiptahallinn 1,02 milljörðum dala.

Kína hefur verið á meðal örast vaxandi hagkerfa heims undanfarna áratugi og hefur hagvöxtur undanfarinna ára öðru fremur verið drifinn af útflutningi. Fyrir þetta hafa stjórnvöld legið undir ámæli og hefur nú verið gerð gangskör í því að auka innlenda eftirspurn. Auk þess hefur eftirspurn frá lykilmörkuðum í Bandaríkjunum og Evrópu dregist saman vegna fjármálakreppunnar.

Þá óttast margir að verslun við Japani muni dragast saman í kjölfar náttúruhamfaranna þar fyrir mánuði síðan.