Árið 2006 nam halli á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, 148,6 milljörðum króna, en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 105,7 milljarða á sama gengi, segir í tilkynningu Hagstofunnar.

Allt árið 2006 voru fluttar út vörur fyrir 242,7 milljarða króna, en inn fyrir 391,3 milljarða króna fob (422,3 milljarða króna cif), vöruskiptajöfnuðurinn var því 42,9 milljörðum króna lakari árið 2006 en árið 2005.

Í desembermánuði voru fluttar út vörur fyrir 20,1 milljarð króna og inn fyrir 33,3 milljarða króna fob (35,8 milljarða króna cif). Vöruskiptin í desember, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 13,1 milljarð króna. Í desember 2005 voru vöruskiptin óhagstæð um 11,2 milljarða króna á sama gengi.

Allt árið 2006 var heildarverðmæti vöruútflutnings 25,5 milljörðum eða 11,7% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður.

Sjávarafurðir voru 51,3% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 1,0% (1,2 milljörðum) meira en á sama tíma árið áður. Stærstu liðir útfluttra sjávarafurða voru fryst fiskflök, ferskur fiskur og saltaður og/eða þurrkaður fiskur. Útflutningur á ferskum fiski og fyrstum flökum jókst en á móti kom samdráttur í útflutningi á frystri rækju.

Útfluttar iðnaðarvörur voru 38% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 24,6% (18,4 milljörðum) meira en árið áður. Ál vó þyngst í útflutningi iðnaðarvöru. Aukningu útfluttra iðnaðarvara má einna helst rekja til aukins útflutnings á áli. Sala á skipum og flugvélum jókst umtalsvert á árinu, segir í tilkynningunni.

Heildarverðmæti vöruinnflutnings árið 2006 var 68,4 milljörðum eða 21,2% meira á föstu gengi, en árið áður.

Stærstu liðir innflutnings 2006 voru hrá- og rekstrarvara með 24,8% hlutdeild, fjárfestingarvara með 24,6% hlutdeild og flutningatæki með 21,3% hlutdeild. Aukning var í flestum liðum innflutnings.

Af einstökum liðum varð mest aukning, í krónum talið, í innflutningi á fjárfestingavöru, 28,4% (21,3 milljarðar), hrá- og rekstrarvöru 25,4% (19,6 milljarðar) og flutningatækjum 28,3% (18,4 milljarðar), sérstaklega flugvélum. Flugvélainnflutningur reyndist mun meiri en gert var ráð fyrir í áður birtum bráðabirgðatölum. Á móti kom samdráttur í innflutningi á fólksbílum, segir í tilkynningunni.