Vöruskiptin í nóvember, reiknuð á fob verðmæti, voru óhagstæð um 13,5 milljarða króna. Í nóvember 2005 voru vöruskiptin óhagstæð um 13,2 milljarða króna á föstu gengi, segir í tilkynningu Hagstofu Íslands.

Í nóvembermánuði voru fluttar út vörur fyrir 19,8 milljarða króna og inn fyrir 33,2 milljarða króna fob (36,1 milljarð króna cif).

Fyrstu ellefu mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir 213,0 milljarða króna en inn fyrir 335,6 milljarða króna fob (364,0 milljarða króna cif). Halli var á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam 122,6 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 94,7 milljarða á sama gengi¹. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 27,9 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.

Verðmæti vöruútflutnings fyrstu ellefu mánuði ársins var 12,2 milljörðum eða 6,1% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 54,3% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 1,8% meira en á sama tíma árið áður.

Aukning var í útflutningi á ferskum fiski og frystum flökum en á móti kom samdráttur í útflutningi á frystri rækju. Útfluttar iðnaðarvörur voru 38,9% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 20,4% meira en á sama tíma árið áður, aðallega vegna hækkunar álverðs. Á móti kom samdráttur í útflutningi á kísiljárni. Einnig varð samdráttur í útflutningi skipa og flugvéla.


Verðmæti vöruinnflutnings fyrstu ellefu mánuði ársins var 40,1 milljarði fob eða 13,6% meira á föstu gengi1 en árið áður. Rúman helming af þeirri aukningu, eða 21,7 milljarða, má rekja til aukins innflutnings á fjárfestingarvöru sem jókst um 32,5%. Innflutningur hrá- og rekstrarvöru jókst um 25,9%, eða um 18,3 milljarða.

Verðhækkun á eldneyti og smurolíu leiddi til 11,2% aukningar, eða um 3,3 milljarða. Innflutningur neysluvöru, annarrar en mat- og drykkjarvöru, jókst um 6,7% eða 3,2 milljarða en 4,8% aukning varð í innflutningi á mat- og drykkjarvöru. Aftur á móti dróst innflutningur á flutningatækjum saman um 12,4%, eða um 7,4 milljarða, aðallega vegna minni flugvélainnflutnings en einnig varð samdráttur í innflutningi fólksbíla, segir í tilkynningunni.