Samkvæmt bráðabirgðatölum voru fyrir allt árið 2008 fluttar út vörur fyrir 467,1 milljarð króna en inn fyrir 472,7 milljarða króna.

Þannig var halli á vöruskiptunum við útlönd samkvæmt bráðabirgðatölum sem nam 5,6 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 127,5 milljarða á sama gengi.

Vöruskiptajöfnuðurinn var því 121,9 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Þar kemur fram að samkvæmt bráðabirgðatölum voru í desembermánuði fluttar út vörur fyrir tæpa 54,0 milljarða króna og inn fyrir 29,8 milljarða króna. Vöruskiptin í desember voru því samkvæmt bráðabirgðatölum hagstæð um 24,2 milljarða króna.

Í desember 2007 voru vöruskiptin óhagstæð um 16,7 milljarða króna á sama gengi. Sjá nánar á vef Hagstofunnar.