Árið 2015 voru fluttar út vörur fyrir 626,3 milljarða króna en inn fyrir 656,6 milljarða króna. Halli var því á vöruskiptum við útlönd sem nam 30,3 milljörðum króna, reiknað á fob verðmæti, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Á sama tíma árið 2014 voru vöruskiptin hagstæð um 4,2 milljarða á gengi hvors árs. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 34,5 milljörðum króna lakari árið 2015 en árið 2014, samkvæmt bráðabirgðatölum.

Í desembermánuði í fyrra voru fluttar út vörur fyrir 48,2 milljarða króna og inn fyrir 56,8 milljarða króna. Vöruskiptin í desember, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 8,6 milljarða króna. Í desember 2014 voru vöruskiptin hagstæð um 3,7 milljarða króna á gengi hvors árs.