Halli af viðskiptum við útlönd dróst saman í janúar í 6,9 milljarða króna úr rúmlega tíu milljörðum á sama tíma árið 2006, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

"Nú hillir undir bata á vöruskiptajöfnuði við útlönd en þó virðist ætla að draga hægar úr halla á vöruskiptum en við gerðum áður ráð fyrir," segir greiningardeild Glitnis.

Hagstofan segir  verðmæti útflutnings í janúar nema 19,2 milljörðum en verðmæti innflutnings var 26,2 milljarðar.

Glitnir bendir á að Innflutningur vegna stóriðju dregst saman Töluverður munur er á þróun innflutnings milli ára eftir vöruflokkum. Þannig dróst innflutningur hrá- og rekstrarvöru saman um ríflega þriðjung milli ára á föstu gengi, og innflutningur fólksbíla minnkaði um 40% milli ára.

Samdráttur varð einnig í innflutningi fjárfestingarvöru og tengist það væntanlega því að nú styttist í lok framkvæmda við álver og virkjun á Austurlandi. Á hinn bóginn jókst innflutningur neysluvöru, að bifreiðum undanskildum, töluvert milli ára sem gæti bent til þess að neytendur séu ekki farnir að herða beltin að marki eftir geysilega neyslugleði undanfarin misseri.

"Útlit er fyrir áframhaldandi bata á vöruskiptum eftir því sem líður á árið. Útflutningur áls mun aukast jafnt og þétt eftir því sem álverið á Reyðarfirði er gangsett, en alls er áætlað að álframleiðsla þar nemi á bilinu 110-120 þúsund tonnum á þessu ári. Útflutningur sjávarafurða gæti einnig orðið eitthvað meiri en í fyrra. Auk þess er ólíklegt að innflutningur neysluvöru aukist að ráði og að líkum mun draga enn frekar úr innflutningi fjárfestingarvöru," segir greiningardeildin.