Vöruskiptajöfnuður við útlönd á fyrri helmingi þessa árs var neikvæður um 81,1 milljarð króna. Hallinn á vöruskiptum hefur ekki mælst meiri á einum árshelmingi síðan árið 2006, sé miðað við gengi hvers árs. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar voru fluttar út vörur að andvirði 244,4 milljarða króna og nam verðmæti vöruinnflutnings 325,5 milljörðum. Þá hefur verðmæti vöruútflutnings ekki verið minna frá því á fyrri árshelmingi 2009.

Ef fram heldur sem horfir stefnir í um 160-180 milljarða króna vöruskiptahalla. Það er tæplega tvöfalt meiri halli en á síðasta ári, sé leiðrétt fyrir gengisstyrkingu krónunnar.

Litast af hagvextinum

Undanfarin þrjú ár hefur aukinn vöruinnflutningur litast af kröftugum hagvexti og sterkri krónu. Íslensk heimili hafa nýtt kaupmáttaraukninguna meðal annars í að kaupa varanlegar neysluvörur líkt og heimilistæki. Sérstaklega hefur innflutningur á sjónvörpum aukist upp á síðkastið.

Erna Björg Sverrisdóttir, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir vöruinnflutningstölur Hagstofunnar benda til þess að vöxtur einkaneyslu verði áfram mikill.

„Þegar búið er að hreinsa út áhrifin af styrkingu krónunnar frá áramótum og setja innflutning á fast gengi hefur innflutningur aukist um tæp 15% á fyrstu sex mánuðum ársins,“ segir Erna Björg, en þegar krónan styrkist lækkar verð innfluttra vara í krónum talið, sem kemur fram líkt og samdráttur í innflutningi.

„Mikil aukning er í innflutningi á fólksbílum, varanlegum neysluvörum eins og heimilistækjum og hálf varanlegum neysluvörum á borð við fatnað. Það er því ekkert sem bendir til þess að það sé að fara að hægjast á vexti einkaneyslu, þvert á móti. Kortaveltutölur fyrir fyrri árshelming segja sömu sögu, en kortavelta Íslendinga hefur aukist mikið á árinu.“

Hvað útflutning varðar jókst hann um 6% á föstu gengi á fyrstu sex mánuðum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra. Útflutningurinn er fyrst og fremst drifinn áfram af útflutningi á áli og álafurðum. Leiðrétt fyrir gengisbreytingum dróst útflutningur á sjávarafurðum saman um 6% á tímabilinu, en svo virðist sem áhrif sjómannaverkfallsins séu að fjara út, að sögn Ernu. Með makríl og síldarvertíð, auk aukningar þorskkvóta, má búast við nokkurri aukningu í útflutningi sjávarafurða út árið.

Þjónustuafgangurinn vegur á móti hallanum

Erna segir vaxandi vöruskiptahalla ekki vera vandamál í sjálfu sér. Hallinn endurspegli sterka krónu og trausta fjárhagsstöðu heimilanna.

„Vaxandi vöruskiptahalli er í sjálfu sér ekki vandamál, enda er það ekki endilega markmið ríkis að hafa afgang á vöruskiptum. Hallinn endurspeglar sterka krónu og sterka fjárhagsstöðu heimilanna. Þá verður að hafa í huga að vöruskiptin eru aðeins hluti af okkar útflutningsverslun. Afgangur á þjónustuviðskiptum vegur ríflega á móti vöruskiptahallanum. Miðað við þann fjölda ferðamanna sem hefur sótt landið heim að undanförnu er ekkert sem bendir til annars en að enn um sinn verði talsverður viðskiptaafgangur,“ segir Erna.

Þess má geta að allir greiningaraðilar sem spá fyrir um efnahagsþróun Íslands spá jákvæðum viðskiptaafgangi fram til ársloka 2019.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .