Vöruskiptahallinn í Bandaríkjunum jókst umfram væntingar í janúar eða úr 65,7 milljörðum dollara í 68,5 milljarða dollara og hefur hann aldrei verið meiri.

12 mánaða vöruskiptahalli í Bandaríkjunum nam 733,9 milljörðum dollara í janúar sem telur um 6% af vergri landsframleiðslu landsins.

Til samanburðar nemur vöruskiptahallinn á Íslandi um 9% af vergri landsframleiðslu og um 6% ef sá halli sem rekja má til stóriðjuframkvæmda er undanskilinn.

Það gæti reynst erfitt fyrir Bandaríkin að draga úr hallanum á meðan hagvöxtur þar er meiri en í flestum viðskiptalöndum landsins.

Það sem helst jók á hallann í janúar var hærra virði olíuinnflutnings og aukin kaup á ódýrum vörum frá Kína.

Líklegt þykir að eftirspurn Bandaríkjamanna eftir raftækjum frá Japan og ódýrum fatnaði frá Kína muni koma í veg fyrir að hallinn dragist saman á næstu mánuðum.