Uppsafnaður vöruviðskiptahalli á fyrsta ársfjórðungi ársins nam 30,7 milljörðum króna en tölur um vöruskiptahalla fyrir marsmánuð hafa verið birtar á vef Hagstofunnar. Það er 6,6 milljörðum króna lægri vöruviðskiptahalli heldur en í fyrra ef miðað er við gengi hvors árs. Það er einkum vegna aukinna útflutningsverðmæta iðnaðarvara og sjávarafurða.

Í mars 2018 voru fluttar út vörur fyrir 43,3 milljarða króna og inn fyrir 57,3 milljarða króna miðað við fob. Vöruviðskiptin í mars því óhagstæð um 14 milljarða króna. Í mars 2017 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 15,9 milljarða króna á gengi hvors árs. Vöruviðskiptahallinn í mars 2018 var því 1,9 milljörðum króna lægri en á sama tíma árið áður. Án skipa og flugvéla nam vöruviðskiptahallinn í mánuðinum 13,2 milljörðum króna samanborið við 16 milljarða króna halla í mars 2017.

Á tímabilinu janúar til mars 2018 voru fluttar út vörur fyrir rúmar 137,7 milljarða króna en inn fyrir 168,4 milljarða. Því var halli á vöruskiptum við útlönd sem nam 30,7 milljörðum króna reiknað á fob verðmæti. Á sama tíma fyrir ári voru vöruviðskiptin óhagstæð um 37,3 milljarða á gengi hvors árs. Án skipa og flugvéla nam vöruviðskiptahallinn 23,3 milljörðum króna, samanborið við 33,2 milljarða króna á sama tíma árið áður.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 var verðmæti vöruútflutnings 28,9 milljörðum króna hærri en á sama tímabili árið áður, eða 26,6% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 53,4% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 14,9% hærra en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 39,5% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 45,2% hærra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna aukins útflutnings á ferskum fiski og frystum flökum.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 var verðmæti vöruinnflutnings 22,3 milljörðum króna hærri en á sama tímabili árið áður, eða 15,3% á gengi hvors árs. Innflutningur jókst mest á eldsneyti og flugvélum.