Í júnímánuði var 14 milljarða vöruskiptahalli, en þá voru fluttar út vörur fyrir rúma 48,3 milljarða króna og inn fyrir tæpa 62,4 milljarða.

Ef horft er til júnímánaðar fyrir ári þá voru vöruviðskiptin óhagstæð um 10,1 milljarð króna á gengi þess árs, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Fimmtánfaldur halli miðað við fyrri helming 2015

Ef horft er til fyrri helming ársins voru fluttar út vörur fyrir 274,9 milljarða króna en inn fyrir 338,1 milljarð króna, svo vöruviðskiptahallinn nam því 63,2 milljörðum króna.

Þegar horft er til sama tímabils í fyrra voru vöruviðskiptin óhagstæð um einungis 4,2 milljarða á gengi þess árs, svo hallinn hefur aukist um 59 milljarða milli ára, sem er fimmtánföldun.

Hvort tveggja lækkun inn og útflutnings

Vöruútflutningurinn lækkaði um 57,9 milljarða milli ára, sem nemur um 17,4% lækkun. Verðmæti iðnaðarvara lækkuðu um 15,0% milli áranna, en þau nema 43,2% alls útflutnings, sjávarútvegur nam 50,6% alls útflutnings en verðmæti þeirra var 22,4% lægra en á sama tíma árið áður.

Verðmæti vöruinnflutnings lækkaði einnig, um 1,1 milljarð króna, sem er 0,3% lækkun. Dróst innflutningur á hrá- og rekstrarvörum auk eldsneytis saman, en á móti jókst innflutningur á fjárfestingarvörum og flutningatækjum.