Vöruskiptahallinn í júní hefur aldrei verið óhagstæðari í einum mánuði, en þá voru vöruskiptin óhagstæð um 15,7 milljarða króna borið saman við 8,1 milljarð í sama mánuði á liðnu ári. Þetta kemur fram í yfirliti Hagstofunnar.

Í júnímánuði voru fluttar út vörur fyrir 22,3 milljarða króna og inn fyrir 38,1 milljarð króna fob (41,1 milljarð króna cif). Vöruskiptin í júní, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 15,7 milljarða króna en það er mesti halli í einum mánuði frá því Hagstofan fór að birta tölur um vöruskiptin eftir mánuðum. Í júní 2005 voru vöruskiptin óhagstæð um 8,1 milljarð króna á föstu gengi¹.

Fyrstu sex mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir 114,3 milljarða króna en inn fyrir 181,2 milljarða króna fob (196,5 milljarða króna cif). Halli var á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam 66,8 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 37,4 milljarða á sama gengi¹. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 29,4 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.

Útflutningur
Verðmæti vöruútflutnings fyrstu sex mánuði ársins var 5,3 milljörðum eða 4,9% meira á föstu gengi¹en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 55,9% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 2,1% meira en á sama tíma árið áður. Aukning var í útflutningi á ferskum fiski og söltuðum og/eða þurrkuðum fiski en á móti kom samdráttur í útflutningi fiskimjöls. Útfluttar iðnaðarvörur voru 39,1% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 26,4% meira en á sama tíma árið áður, aðallega vegna hækkandi álverðs.

Innflutningur
Verðmæti vöruinnflutnings fyrstu sex mánuði ársins var 34,7 milljörðum fob eða 23,7% meira á föstu gengi¹ en árið áður. Mest varð aukning í innflutningi á fjárfestingarvöru og hrá- og rekstrarvöru. Á móti kom samdráttur í innflutningi flugvéla.