Vöruskiptajöfnuður í maí var óhagstæður um 17,3 milljarða króna, en fluttar voru út vörur fyrir 46,8 milljarða og inn fyrir 64,1 milljarð króna. Eru þetta mikil umskipti frá því fyrir ári þegar vöruskiptin voru óhagstæð um 2,9 milljarða.

Fyrstu fimm mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir 226,6 milljarða króna en inn fyrir 275,8 milljarða króna, svo halli á vöruviðskiptum við útlönd á þessum tíma nam 49,2 milljörðum króna. Á sama tímabili í fyrra voru vöruviðskiptin hagstæð um tæpa 6 milljarða á gengi hvors ár. Var því vöruskiptajöfnuðurinn því 55,1 milljarði krónum lakari í ár en á sama tíma í fyrra.

Á þessu tímabili var verðmæti vöruútflutnings 50 milljörðum króna lægri eða 18,1% lægri en á sama tíma í fyrra. Iðnaðarvörur voru 50,1% af öllum útflutningi en verðmæti þeirra var 25,6% lægra en á sama tímabili árið áður. Er þetta fyrst og fremst vegna lægra álverðs. Sjávarafurðir voru 43,4% alls vöruútflutnings og lækkaði verðmæti þeirra um 12,6% milli ára.

Verðmæti vöruinnflutnings var 5,1 milljörðum króna lægri eða 1,9%, en á sama tíma í fyrra. Dróst fyrst og fremst saman innflutningur á hrá- og rekstrarvörum ásamt eldsneyti. En á móti jókst innflutningur á fjárfestingavörum og flutningatækjum.