Í maímánuði voru fluttar út vörur fyrir 20,5 milljarða króna og inn fyrir 31,2 milljarða króna (fob), að því er kemur fram hjá Hagstofu Íslands. Vöruskiptin í maí, voru því óhagstæð um 10,7 milljarða króna (reiknað á fob-verðmæti). Í maí 2006 voru vöruskiptin óhagstæð um 12,6 milljarða króna reiknað á föstu gengi.

Fyrstu fimm mánuðina 2007 voru fluttar út vörur fyrir 119,9 milljarða króna en inn fyrir 150,5 milljarða króna (fob). Nokkur halli var á vöruskiptunum við útlönd (reiknað á fob verðmæti) sem nam 30,6 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 59,3 milljarða á sama gengi¹. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 28,7 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður, en vöruskiptahalli ennþá umtalsverður.