Vöruskiptajöfnuður var hagstæður í ágústmánuði um 12,6 milljarða króna reiknuð á fob verðmæti að því er fram kemur í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Fluttar voru út vörur fyrir 44,1 milljarð króna og inn fyrir tæpa 31,5 milljarða króna fob (34,4 milljarða króna cif). Í ágúst 2008 voru vöruskiptin óhagstæð um 4,7 milljarða króna á sama gengi.

Fyrstu átta mánuðina 2009 voru fluttar út vörur fyrir 297,6 milljarða króna en inn fyrir 252,9 milljarða króna fob (276,6 milljarða króna cif). Afgangur var því á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam 44,7 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 76,1 milljarð á sama gengi¹. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 120,8 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður. Tölur fyrri mánaða um innflutning á hrá- og rekstrarvörum hafa verið leiðréttar til hækkunar um 7,9 milljarða.

Útflutningur

Fyrstu átta mánuði ársins 2009 var verðmæti vöruútflutnings 104,4 milljörðum eða 26,0% minna á föstu gengi¹ en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 44,6% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 10% minna en á sama tíma árið áður.  Útfluttar iðnaðarvörur voru 49,4% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 28,8% minna en á sama tíma árið áður. Mestur samdráttur varð í verðmæti útflutnings iðnaðarvara, aðallega áls, en einnig var samdráttur í útflutningi á skipum og flugvélum og á sjávarafurðum.

Innflutningur

Fyrstu átta mánuði ársins 2009 var verðmæti vöruinnflutnings 225,1 milljarði eða 47,1% minna á föstu gengi¹ en á sama tíma árið áður. Samdráttur varð í innflutningi nær allra liða innflutnings, mest í hrá- og rekstrarvöru, flutningatækjum og fjárfestingavöru.