Í júlímánuði voru fluttar út vörur fyrir 54,9 milljarða króna og inn fyrir 42,1 milljarð króna samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Vöruskiptin í júlí, reiknuð á fob verðmæti, voru því hagstæð um 12,8 milljarða króna. Í júlí 2010 voru vöruskiptin hagstæð um 4,2 milljarða króna á sama gengi¹. Fyrstu sjö mánuðina 2011 voru fluttar út vörur fyrir 339,9 milljarða króna en inn fyrir 285,9 milljarða króna fob (307,7 milljarða króna cif). Afgangur var því á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam 54,0 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 67,9 milljarða á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 13,9 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.