Vöruskiptin í júlí voru jákvæð um 6,4 milljarða króna, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Vísbendingar eru um minna verðmæti útfluttra sjávarafurða, meira verðmæti útfluttra iðnaðarvara og meira verðmæti innflutts eldsneytis í júlí en júní í ár, að því er segir í frétt Hagstofunnar. Þar kemur fram að útflutningur í júlí hafi numið 41,3 milljörðum en innflutningur 34,9 milljörðum.

Í janúar til júlí var vöruskiptaafgangur upp á 39,4 milljarða króna samkvæmt þessum bráðabirgðatölum, en í fyrra var halli upp á 48,5 milljarða króna. Útflutningur var heldur meiri í ár en í fyrra og munaði þar um 12 milljörðum króna. Mestu munaði þó um innflutninginn, því að hann hefur minnkað um 76 milljarða króna frá fyrra ári.