Vöruskipti voru hagstæð um 7,1 milljarð króna í október. Þetta var rúmlega 50% samdráttur á milli ára, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Í október í fyrra voru vöruskipti hagstæð um 15,1 milljarða króna. Afgangur af vöruskiptum á fyrstu tíu mánuðum ársins nam 51,3 milljörðum króna samanborið við 64,1 milljarða á sama tíma í fyrra. Vöruskiptin eru 12,8 milljörðum krónum lakari nú en fyrir ári.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að verðmæti vöruútflutnings nam 55 milljörðum króna og innflutnings 47,9 milljörðum. Á fyrstu tíu mánuðum ársins nam verðmæti vöruútflutnings 508,9 milljörðum króna en innflutnings 457,6 milljörðum króna.