Halli var á vöruskiptum við útlönd upp á 600 milljónir króna í mars, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar . Á sama tíma í fyrra nam afgangurinn 9,3 milljörðum króna. Á fyrsta ársfjórðungi nam afgangurinn svo 9,3 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra nam afgangurinn 26,6 milljörðum króna. Þetta merkir að vöruskipti á fyrstu þremur mánuðum ársins voru 17,3 milljörðum krónum lakari en í fyrra. Vöruskipti hafa verið neikvæð þrisvar sinnum á síðastliðnum fimm árum. Síðast var það í maí í fyrra en þá nam hallinn 6,5 milljörðum króna.

Innflutningur á bílum jókst

Fram kemur á vef Hagstofunnar að í mars voru vörur fluttar út fyrir 45,2 milljarða króna og inn fyrir 45,8 milljarða. Á fyrstu þremur mánuðum ársins nam verðmæti vöruútflutnings 136,4 milljörðum króna en innflutnings 127,1 milljarði króna.

Fram kemur í talnagögnum Hagstofunnar að á fyrsta ársfjórðungi var verðmæti vöruútflutnings 13,2% lægri á gengi hvors árs en ári áður. Iðnaðarvörur voru 52,2% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 12,2% lægra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna áls. Þá voru sjávarafurðir 40,9% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 18,5% lægra en á sama tíma árið áður. Þá var verðmæti vöruinnflutnings á fyrsta ársfjórðungi 2,6% lægra á gengi hvors árs auk þess sem innflutningur á fólksbílum og skipum jókst.