Í desembermánuði 2012 voru fluttar út vörur fyrir 45 milljarða króna og inn fyrir 41,5 milljarða króna. Vöruskiptin í desember voru því hagstæð um 3,5 milljarða króna. Í desember 2011 voru vöruskiptin hagstæð um rúmar 250 milljónir króna á sama gengi, að því er segir í frétt á vef Hagstofunnar.

Allt árið 2012 voru fluttar út vörur fyrir 631,6 milljarða króna en inn fyrir 556,1 milljarð króna. Afgangur var því á vöruskiptunum við útlönd sem nam 75,5 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 99,4 milljarða á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 23,9 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.

Árið 2012 var verðmæti vöruútflutnings 3,1 milljarði eða 0,5% minna á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 52,4% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 3,7% minna en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 42,5% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 4,3% meira en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í útflutningi sjávarafurða, aðallega á ferskum fiski. Á móti kom samdráttur í verðmæti útflutnings iðnaðarvara, aðallega áls og álafurða.