Eimskip
Eimskip
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Í júnímánuði voru fluttar út vörur fyrir 44,9 milljarða króna og inn fyrir 43,1 milljarð króna fob (46,2 milljarða króna cif). Vöruskiptin í júní, reiknuð á fob verðmæti, voru því hagstæð um 1,8 milljarða króna. Í júní 2010 voru vöruskiptin hagstæð um 11,7 milljarða króna á sama gengi (Miðað er við meðalgengi á vöruviðskiptavog. Á þann mælikvarða er meðalverð erlends gjaldeyris 4,7% lægra mánuðina janúar–júní 2011 en sömu mánuði fyrra árs.) Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Fyrstu sex mánuðina 2011 voru fluttar út vörur fyrir 285,0 milljarða króna en inn fyrir 242,8 milljarða króna fob (261,5 milljarða króna cif). Afgangur var því á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam 42,2 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 63,2 milljarða á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 21,0 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.

Útflutningur

Fyrstu sex mánuði ársins 2011 var verðmæti vöruútflutnings 18,4 milljörðum eða 6,9% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 37,0% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 3,5% meira en á sama tíma árið áður.  Útfluttar iðnaðarvörur voru 57% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 6,9% meira en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í verðmæti útflutnings iðnaðarvara, aðallega áls og kísiljárns. Einnig varð aukning í útflutningi sjávarafurða og skipum og flugvélum.

Innflutningur

Fyrstu sex mánuði ársins 2011 var verðmæti vöruinnflutnings 39,4 milljörðum eða 19,4% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Aukning á verðmæti innflutnings varð mest í hrá- og rekstrarvöru, eldsneyti og flutningatækjum en einnig varð aukning í innflutningi á fjárfestingarvörum og neysluvörum.