Í marsmánuði voru fluttar út vörur fyrir 51,3 milljarða króna og inn fyrir tæpa 45,0 milljarða króna fob (48,5 milljarða króna cif). Vöruskiptin í mars, reiknuð á fob verðmæti, voru því hagstæð um 6,3 milljarða króna. Í mars 2010 voru vöruskiptin hagstæð um 10,8 milljarða króna á sama gengi, samkvæmt frétt Hagstofunnar.

Fyrstu þrjá mánuðina 2011 voru fluttar út vörur fyrir 136,4 milljarða króna en inn fyrir tæpa 112,0 milljarða króna fob (120,6 milljarða króna cif). Afgangur var því á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam 24,5 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 28,6 milljarða á sama gengi.

Vöruskiptajöfnuðurinn var því 4,1 milljarði króna lakari en á sama tíma árið áður.

Fyrstu þrjá mánuði ársins 2011 var verðmæti vöruútflutnings 11,5 milljörðum eða 9,2% meira á föstu gengi¹ en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 37,2% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 10,1% meira en á sama tíma árið áður.  Útfluttar iðnaðarvörur voru 57,8% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 6,9% meira en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í verðmæti útflutnings iðnaðarvara, aðallega áls. Einnig varð aukning í útflutningi sjávarafurða.

Fyrstu þrjá mánuði ársins 2011 var verðmæti vöruinnflutnings 15,5 milljörðum eða 16,1% meira á föstu gengi¹ en á sama tíma árið áður. Aukning varð í innflutningi á hrá- og rekstrarvöru, eldsneyti og fjárfestingarvöru.