Í maímánuði voru fluttar út vörur fyrir 56,7 milljarða króna og inn fyrir 49,9 milljarða króna, samkvæmt gögnum Hagstofunnar . Vöruskiptin í maí, reiknuð á fob verðmæti, voru því hagstæð um 6,8 milljarða króna. Í maí 2010 voru vöruskiptin hagstæð um 16,5 milljarða króna á sama gengi.

Fyrstu fimm mánuðina 2011 voru fluttar út vörur fyrir 240,8 milljarða króna en inn fyrir 199,7 milljarða króna fob (215,3 milljarða króna cif). Afgangur var því á vöruskiptum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam 41,0 milljarði en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 51,6 milljarða á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 10,6 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.

Útflutningur
Fyrstu fimm mánuði ársins 2011 var verðmæti vöruútflutnings 25,5 milljörðum eða 11,9% meira á föstu gengi¹ en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 35,8% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 5,2% meira en á sama tíma árið áður. Útfluttar iðnaðarvörur voru 57,4% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 11,5% meira en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í verðmæti útflutnings iðnaðarvara, aðallega áls. Einnig varð aukning í útflutningi sjávarafurða og skipum og flugvélum.

Innflutningur
Fyrstu fimm mánuði ársins 2011 var verðmæti vöruinnflutnings 36,1 milljarði eða 22,1% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Aukning á verðmæti varð í öllum liðum innflutnings, mest í hrá- og rekstrarvöru.