Í októbermánuði voru fluttar út vörur fyrir 28,3 milljarða króna og inn fyrir tæpa 35 milljarða króna fob (37,8 milljarða króna cif). Vöruskiptin í október, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 6,6 milljarða króna. Í október 2006 voru vöruskiptin óhagstæð um 8,9 milljarða króna á sama gengi.

Flutt inn fyrir 320 milljarða

Á vef Hagstofu Íslands segir að fyrstu tíu mánuði 2007 hafi verið fluttar út vörur fyrir 238,3 milljarða króna en inn fyrir tæpa 320 milljarða króna fob (346,4 milljarða króna cif). Halli var á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam 81,6 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um tæpa 120 milljarða á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 38,3 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður.

Verslun með flugvélar það sem af er árinu hefur nú verið leiðrétt vegna nýrra upplýsinga. Samkvæmt því er vöruskiptahalli í fyrri mánuðum þessa árs 1,75 milljörðum minni en áður var talið. Að auki eru í tölum fyrir janúar-október óvenju miklar leiðréttingar á niðurstöðum fyrri mánaða, segir á vef Hagstofunnar.

Útflutningur

Fyrstu tíu mánuði ársins 2007 var verðmæti vöruútflutnings 39 milljörðum eða 19,6% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 44% alls útflutnings og var verðmæti þeirra tæplega 2% meira en á sama tíma árið áður. Útfluttar iðnaðarvörur voru 40% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 28% meira en árið áður. Aukningu útflutnings má einna helst rekja til aukins álútflutnings og aukinnar sölu á skipum og flugvélum. Á móti kom samdráttur í útflutningi á lyfjum og lækningatækjum.

Innflutningur

Fyrstu tíu mánuði ársins 2007 var verðmæti vöruinnflutnings 0,7 milljarði eða 0,2% meira á föstu gengi  en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í innflutningi á mat- og drykkjarvöru og annarri neysluvöru en á móti kom samdráttur í innflutningi á flugvélum og fjárfestingarvöru.