Mikið er rætt um vöruskort og tafir á afhendingu vara vegna rofs á aðfangakeðjum. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í vikunni að samtökin heyri sífellt af áhyggjum sem stjórnendur verslana hafa á afhendingu hefðbundins jólavarnings en viðmælendur blaðsins bera sig þó vel.

Viðskiptavinir Ikea hafa margir orðið varir við það á síðustu mánuðum að ýmsar vörur hafa selst upp. Guðný Camilla Aradóttir, upplýsingafulltrúi Ikea á Íslandi, segir að fyrirtækið fái ekki inn jafnmikið af vörum og óskandi væri en að þær skili sér ávallt á endanum. Verslunin njóti góðs af því að alþjóðlega Ikea-samstæðan hefur reynt að tryggja jafna hlutfallslega dreifingu vinsælla vara eftir markaðssvæðum.

Hún lýsir því að ástandið hafi tekið breytingum í gegnum faraldurinn. Í upphafi hafi vantað vörur vegna framleiðsluvanda þar sem verksmiðjur úti í heimi þurftu að loka vegna sóttvarnaráðstafana. Nú liggi vandamálið hins vegar fyrst og fremst í flutningum, þá helst frá Kyrrahafssvæði Asíu.

„Það er vöruskortur að því leyti að það vantar ákveðnar vörur á vissum tímum en þær skila sér alltaf á endanum. Heilt yfir höfum við engar stórkostlegar áhyggjur af þessum málum og lítum á að þetta sem tímabil sem við munum komast í gegnum,“ segir Guðný.

Hún hefur ekki áhyggjur af jólavertíðinni hjá Ikea en telur þó skynsamlegt að fólk gangi frá jólakaupunum fyrr í ár í stað þess að treysta á að allar vörur verði til staðar rétt fyrir aðfangadag.

Jon Abrahamsson Ring, forstjóri Inter Ikea, eiganda Ikea vörumerkisins, sagði í viðtali við Financial Times á dögunum að röskun á aðfangakeðjum muni að líkindum vara í ár til viðbótar.

Fjöldi birgja og stækkun lagers hjálpað

Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, segir að allflestir birgjar fyrirtækisins hafi hækkað verð að undanförnu vegna hækkana á hrávöru- og fraktverði. Hún nefnir dæmi um birgja sem hafi í gegnum tíðina hækkað verð með ársmillibili en sé nú búinn að tilkynna um þriðju verðhækkunina í ár. Pfaff hafi brugðist við fyrir nokkru með því að stækka lagerinn sinn og sé því vel í stakk búið fyrir komandi mánuði.

Tískuvöruverslunarkeðjan NTC hefur ekki lent í teljandi vandræðum með tafir á afhendingum. Svava Þorgerður Johansen, eigandi NTC, segir að það hafi reynst fyrirtækinu vel á síðustu mánuðum að vera með marga birgja. Hún nefnir einnig að ýmis fatamerki hafi fært framleiðslu sína í auknum mæli til Evrópu og því hafi tafir á höfnum í Kína minni áhrif á fyrirtækið en ella. Svava segist eiga von á því að fólk kaupi jólagjafir fyrr en áður í ár.

Jón Björnsson, forstjóri Origo, segir að fyrirtækið hafi fundið fyrir framangreindum áhrifum, afhendingartími hafi lengst og skortur á örgjörvum hafi leitt af sér minna framboð á ákveðnum vörum. Hins vegar hafi þessi vandamál komið upp fyrir rúmu ári síðan og Origo hingað til tekist að glíma við ástandið. Jón gerir því ekki ráð fyrir teljandi áhrifum á verslun Origo fyrir jólavertíðina.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .