Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, hlaut í gær Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2019. Í byrjun ársins 2018 hlaut Krónan hæstu einkunn fyrirtækja á matvörumarkaði í Íslensku ánægjuvoginni. Var þetta annað árið í röð sem Krónan mældist hæst. Krónan mældist með 69,9 stig, Nettó 67,9 og Bónus 65,9. Gréta María segir að þó að munurinn á milli Krónunnar og Nettó hafi ekki mælst tölfræðilega marktækur hafi þetta verið gleðilegt.

„Það er mikils virði að vera með ánægða viðskiptavini því þeir skipta okkur öllu máli," segir hún. „Við erum mjög stolt af þessu. Eins og ég hef sagt þá leggjum við mikið upp úr því að upplifun viðskiptavina sé sem best.“

Samkeppni á matvörumarkaði er hörð. Í verðkönnunum eru Krónan og Bónus yfirleitt með lægsta verðið. Bónus er yfirleitt örlítið með lægra verð. Samkvæmt síðustu könnum Alþýðusambands Íslands (ASÍ), sem gerð var í september var munurinn 3%.

„Við erum oft að mælast með 1 til 3% hærra verð en í sumum könnunum mælumst við í mörgum liðum með lægra verð en Bónus. Þetta sýnir svart á hvítu að Krónan er að stuðla að virkri samkeppni á matvörumarkaði. Það að við séum á þessum markaði held ég að hjálpi til við að halda matvöruverði lágu. Svo má alveg geta þess að vöruúrvalið í Krónunni er svona tvöfalt meira en í Bónus.“

Costco kom með miklu hvelli inn á íslenskan smásölumarkað í maí 2017. Spurð hvaða áhrif Costco hafi haft svarar Gréta María: „Það er merkilegt að segja það en við tókum langmest eftir því að sala á klósettpappír hjá okkur dróst töluvert saman. Það var samt bara tímabundið því þetta kom mjög fljótt til baka. Þegar Costco byrjaði þá var matvöruverð hjá þeim mjög lágt en það leið ekki á löngu þar til það hækkaði og sumum tilvikum var verðið orðið miklu hærra en í öðrum verslunum. Þegar það gerist þá eru menn ekki trúir sínu konsepti og ég held að viðskiptavinurinn sjái í gegnum það.“

Sjálfvirknivæðingin

Krónan varð fyrsta verslunin hér á landi til að koma með sjálfsafgreiðslukassa, reyndar fyrir um 12 árum, en hætt var við þá tilraun. Síðan var þráðurinn tekin upp á ný síðasta vor.

„Þegar við byrjuðum þá var það verkefni keyrt áfram af tölvudeild. Ég held að hafi verið hluti af vandanum því það verða allir að taka þátt í svona stóru verkefni. Þetta var ekki nægilega vel hugsað og viðskiptavinirnir ef til vill ekki heldur reiðubúnir að taka þetta skref. Þegar við svo tókum þráðinn upp aftur þá var það gert á öðrum forsendum og mjög vel undirbúið. Sjálfsafgreiðslukassarnir voru settir upp sem kostur fyrir þá sem eru með fáar vörur og vilja vera fljótir í gegn. Það er mikill misskilningur að þessir kassar spari mannafla því það er alltaf starfsfólk tiltækt ef eitthvað kemur upp. Unga fólkið sem er að vinna hjá okkur núna er líka mjög klárt og fljótt að læra á svona lagað. Þetta eru algjörir snillingar. Þessi sjálfvirknivæðing gengur alveg glimrandi vel. Ég held að tækniþróun undanfarinna ára og snjallsímavæðingin hafi sitt að segja í þeim efnum. Fólk er óhrætt við að nýta sér nýja tækni.

Ég sé fyrir mér að snjallsímavæðingin eigi eftir að hafa mikil áhrif á matvörumarkaðinn. Hún hefur auðvitað þegar gert það því fólk er farið að borga með símanum en ég held það verði heldur ekki langt í að fólk geti skannað strikamerki með símanum og fengið ýmsar upplýsingar um vöruna. Til dæmis upplýsingar um nákvæmt næringarinnhald og kolefnisspor. Þetta mun enn auka umhverfisvitund neytandans og efla lýðheilsu.“

Búa til betra samfélag til framtíðar

Nú hefur Nettó í töluverðan tíma boðið upp á heimsendingar á matvöru. Spurð hvort Krónan muni gera eitthvað svipað svarar Gréta María: „Já, við erum að undirbúa okkur. Snemma á næsta ári munum við taka fyrsta skrefið sem verður að bjóða fólki að panta á Netinu og sækja vörurnar í ákveðnar verslanir. Í framhaldinu stefnum við að því að stíga skrefið til fulls og bjóða upp á heimsendingu. Þetta er samt ekki eins einfalt og það hljómar. Okkar kjarnastarfsemi er að selja matvöru en ekki að keyra hana út. Við viljum halda okkur við það sem við erum góð í og finna okkur einhverja samstarfsaðila sem eru góðir í hinu. Síðan eru það umhverfissjónarmiðin. Það er ekki mjög umhverfisvænt að margir séu í því að dreifa vörum út um allan bæ. Spurningin er hvernig þetta allt muni þróast.“

Gréta María segir sérstaða Krónunnar verði áfram fólgin í áherslunni á umhverfis-, lýðheilsu- og tæknimál. Þetta þrennt sé grunnurinn að því að einfalda fólki lífið.

„Við ætlum okkur að vera í fararbroddi á íslenskum matvörumarkaði og taka þátt í að búa til betra samfélag til framtíðar.“

Ítarleg viðtal við Grétu Maríu Grétarsdóttur er að finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í gær.