Árið 2018 voru fluttar út vörur fyrir 602,1 milljarð króna og inn fyrir 779,6 milljarða króna fob (831,6 milljarða króna cif). Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Vöruviðskiptin 2018, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 177,5 milljarða króna. Vöruviðskiptahallinn 2018 var einum milljarði króna meiri en árið 2017 þegar vöruviðskiptin voru óhagstæð um 176,5 milljarða króna á gengi hvors árs.1 Vöruviðskiptahallinn 2018 án skipa og flugvéla nam 162,4 milljörðum króna samanborið við 161,7 milljarða króna halla árið 2017.

Útflutningur

Árið 2018 var verðmæti vöruútflutnings 82,5 milljörðum króna hærra samanborið við árið 2017, eða 15,9% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 53,3% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 14,7% hærra en á sama tíma árið áður. Útflutningur á áli og álafurðum átti stærstu hlutdeild í útflutningi á iðnaðarvörum árið 2018 eða 38,2% af heildarútflutningi. Sjávarafurðir voru 39,8% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 21,7% hærra en árið áður. Hækkun var í öllum undirliðum sjávarafurða. Stærstu hlutdeild í útflutningi sjávarafurða árið 2018 áttu ferskur fiskur (9,9% af heildarútflutningi) og fryst flök (9,3% af heildarútflutningi). Stærstu viðskiptalönd í vöruútflutningi árið 2018 voru Holland (Niðurland), Bretland og Spánn en 71,8% alls útflutnings fór til ríkja ESB.

Innflutningur

Árið 2018 var verðmæti vöruinnflutnings 83,5 milljörðum króna hærra en árið 2017, eða 12% á gengi hvors árs. Mestu munaði um innflutning á eldsneyti og smurolíum og á hrávörum og rekstrarvörum. Stærstu hlutdeild í innflutningi áttu hrá- og rekstrarvörur (28,5%) og fjárfestingarvörur (20,5%). Stærstu viðskiptalönd í vöruinnflutningi árið 2018 voru Noregur, Þýskaland, Kína og Bandaríkin en 49% alls innflutnings kom frá ríkjum ESB.