Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru fluttar út vörur fyrir 82,8 milljarða króna í maí á þessu ári. Fluttar voru inn vörur fyrir 116,8 milljarða króna samkvæmt bráðabirgðatölum og voru því vöruviðskiptin í maí óhagstæð um 33,9 milljarða króna.

Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 26,8 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var einnig óhagstæður um 342,5 milljarða króna sem er 106,1 milljarði króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Ef skoðað er verðmæti vöruútflutnings fyrir maímánuð var það 9,8 milljörðum króna minna en fyrir ári síðan. Fór verðmætu vöruútflutnings úr 92,6 milljörðum króna í 82,8 milljarða, af því voru iðnaðarvörur 56% alls vöruútflutnings og sjávarafurðir 36%.

Verðmæti vöruinnflutnings minnkaði um 2,7 milljarða króna eða um 2,3% frá sama tímabili í fyrra. Verðmæti hrá- og rekstrarvöru nam 33,9 milljörðum króna og minnkaði um 2,2 milljarða. Verðmæti fjárfestingarvara jókst um 23,2% og verðmæti flutningatækja jókst eins um 29,7% samanborið við maí 2022. Aukningin var mest í eldsneyti, hrá- og rekstrarvörum og fjárfestingarvörum.

Meðaltal gengisvísitölu síðustu tólf mánaða var 194,0 og var gengið 0,8% veikara en á tólf mánaða tímabili ári fyrr þegar meðaltal gengisvísitölu var 192,5. Gengið veiktist svo um 6,1% í maí samanborið við maí 2022.